Í umsögn sinni um stjórnarskrárfrumvarpið, sem nú liggur fyrir Alþingi, leggst Samorka gegn því að ákvæðið verði samþykkt nú, og leggur til að umfjöllun um þau atriði verði frestað.

Þetta kemur fram á vef Samorku en í frumvarpinu eru m.a. eru lagðar til breytingar er varða ákvæði um auðlindir og umhverfismál.

Í umsögn Samorku er vakin athygli á „ófullnægjandi“ skilgreiningum hugtaka sem „valdið gætu réttaróvissu, um skörun við vinnu sem nú á sér stað á vegum stjórnvalda við útfærslu nýlegra lagasetninga, um óljós atriði er varða spurninguna um nýnæmi og fordæmi frá nágrannalöndum, um að efnisatriði frumvarpsins hafi ekki fengið þá almennu umfjöllun í samfélaginu sem æskileg hlýtur að teljast við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og um skort á upplýsingum um þær lagabreytingar sem samþykkt frumvarpsins kann að hafa í för með sér,“ eins og það er orðað á vef Samorku.

„Hæst ber þó sá afar skammi tími sem umsagnaraðilum um frumvarpið er ætlaður, til þess að móta afstöðu til tillagna um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Af þessum ástæðum leggur Samorka til að frestað verði að taka inn í stjórnarskrána efnisatriði 1. gr. frumvarpsins.“

Sjá nánar á vef Samorku.