Snemma í september var formlega tilkynnt að MP banki ætti í samræðum við Virðingu um samruna félaganna tveggja. Var það hluti af stefnu beggja félaga að sameinast í öflugt fjármálafyrirtæki sem væri leiðandi á fjárfestingarbankamarkaði og meðal stærstu aðila í eignastýringu á Íslandi.

Í fréttum Viðskiptablaðsins hafði verið sagt frá óformlegum þreifingum þessara aðila skömmu áður um þessi áform. Í seinustu viku kom hins vegar í ljós að talsvert mikið bar á milli aðila um verðmat á félögunum. Hluthafar í Virðingu höfðu þannig gert sér í hugarlund mun stærri eignarhlut í MP banka en hluthafar í bankanum voru tilbúnir að sætta sig við. Varð því úr að viðræðunum var slitið.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, segir alls ekki útilokað að bankinn sameinist öðru fjármálafyrirtæki þegar fram líða stundir. Ekkert slíkt sé þó á sjóndeildarhringnum í augnablikinu. „Já, það hefur verið stefna bankans að stækka með samrunum eða yfirtökum og ég hef ekkert orðið var við að sú stefna hafi neitt breyst, en það eru engin slík áform uppi í dag og bankinn stendur bara mjög vel, eins og hann er í dag,“ segir hann. Bankinn skoðar allar hugmyndir um sameiningu með opnum huga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .