„Við erum búin að fá skipið og erum að græja það áður en það kemur í þjónustu okkar í næstu viku,“ segir Guðmundur Þór Gunnarsson, framkvæmdastjóri millilandasviðs Samskipa. Félagið keypti í byrjun mánaðar flutningaskip á uppboði í Hollandi og er það nú í slipp í Rotterdam. Skipinu er ætlað að sinna Evrópusiglingum og þjóna ýmist Noregi eða Íslandi.

Fram kemur í tilkynningu frá Samskipum að þetta nýja skip hafi fengið nafnið Akrafell. Um er ræða systurskip Pioneer Bay sem notað hefur verið meðal annars við strandsiglingar á Íslandi. Samskip Akrafell var byggt í Jinling skipasmíðastöðinni  í Kína árið 2003 og er það 99,9 metra langt, 18,6 metra breitt og ber um 500 gámaeiningar. Tveir gámakranar eru um borð og eru báðir með 40 tonna lyftigetu.

Kaupverð skipsins er trúnaðarmál.

Samskip eiga orðið fimm skip og er félagið með um fjögur til sex á leigu til viðbótar. Þrjú skipanna sinna Íslandsflutningum.