Samskip hafa stefnt félaginu A1988, sem áður var Hf. Eimskipafélag Íslands, og krafist skaðabóta vegna meintra tilrauna Eimskipafélagsins til þess að ganga á milli bols og höfuðs flutningastarfsemi Samskips á árunum 1999-2002. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi á fimmtudag.

Málið byggir á úrskurði Samkeppniseftirlitsins frá 2008 þar sem eftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Eimskip hefði á margan hátt farið á svig við lögin í tilraunum sínum til þess að bola Samskipum af markaði fyrir sjóflutninga á milli Íslands og útlanda. Samskip meta tjón sitt á 3,7 milljarða króna og hefur stjórn félagsins ákveðið að fáist einhverjar skaðabætur muni þær renna til góðgerðarmála.