Fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem kveður á um að skattstjóri geti heimilað að tvö eða fleiri skráningarskyld hlutafélög og einkahlutafélög verði samskráð á virðisaukaskattsskrá, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Markmið frumvarpsins er að gera móður- og dótturfélögum kleift að vera ein skattaleg eining þannig að heildarvirðisaukaskattur félaganna verði jafnhár og hann hefði orðið ef öll starfsemi félaganna hefði verið rekin í einu félagi.

Samskráningin skal vera í nafni móðurfélagsins en félögin bera þó óskipta
ábyrgð á greiðslu virðisaukaskattsins. Samkvæmt frumvarpinu eru sambærileg skilyrði sett fyrir heimild til samskráningar á virðisaukaskattsskrá og gilda um samsköttun félaga samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Skilyrðin fyrir samskráningu eru að 90% hlutafjár í dótturfélögum sé í eigu móðurfélagsins, að félögin hafi sama reikningsár og að samskráningin standi að lágmarki í 5 ár. Réttaráhrif samskráningar verða þau að með tilliti til virðisaukaskatts skoðast starfsemi hinna samskráðu félaga sem ein starfsemi og viðskipti milli samskráðra bera ekki virðisaukaskatt umfram það sem væri ef starfsemi samskráðra félaga væri öll á einni hendi.

Frumvarpið miðar að því að lögin komi til framkvæmda við skráningu frá og
með 1. janúar 2005.