Samson eignarhaldsfélag hagnaðist um 8.262 milljónir árið 2005, árið áður nam hagnaðurinn 5.125 milljónum króna, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Félagið er eignarhaldsfélag og er tilgangur þess eignarhald á hlutabréfum í Landsbankanum og rekstur og umsýsla tengd því eignarhaldi.

Arðsemi eigin fjár á árinu var 156% þegar miðað er við hagnað samkvæmt rekstrarreikningi. Markaðsverð hlutabréfa í Landsbankanum hækkuðu um 109% árið 2005.

Hreinar rekstrartekjur námu 10.080 milljónum króna árið 2005 en árið 2004 námu þær 6.217 milljónum króna.

Móttekinn arður frá Landsbankanum að fjárhæð 726 milljónum króna gekk til lækkunar á fjárfestingu félagsins í bankanum en var ekki færður til tekna í rekstrarreikningi.

Bókfært eigið fé í árslok 2005 nam 14.292 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi. Árið 2004 nam bókfært eigið fé 11.336 milljónum króna.

Eignarhlutinn í bankanum metinn á 46.096 milljónir króna í bókum Samsonar.

Sé hins vegar miðað við markaðsverð eignarhlutans í árslok nam eigið fé félagsins 68.335 milljónum að teknu tilliti til tekjuskattsáhrifa, segir í tilkynningunni.

Eignarhluti félagsins í Landsbankanum var að nafnverði 4.427 milljónir króna í árslok og nam hann 40,2% af útgefnu hlutafé bankans.

Markaðsverð eignarhlutans nam 112.002 milljónum króna í árslok.