Það vantar ekki sveiflurnar í afkomunni hjá Samson eignarhaldsfélagi þrátt fyrir að eign félagsins í Landsbankanum (tæplega 42% hlutur) sé færð samkvæmt hlutdeildaraðferð sem þó er til þess fallin að draga úr sveiflum, þ.e. Samson reiknar sér hlutdeild í hagnaði bankans en færir sér ekki til tekna eða kostnaðar breytingar á markaðsvirði eignarhlutans.

En sem sagt: Samson  hagnaðist um 31,9 milljarða fyrir skatta (35,7 milljarða eftir skatta) á fyrri helmingi ársins en á sama tímabili var 3,9 milljarða króna tap af rekstrinum þannig að sveiflan á milli tímabila nemur nærri 36 milljörðum króna.

Hlutdeild Samson í hagnaði Landsbankans nam 12,5 milljörðum króna og breytist ekki mjög mikið á milli ára heldur er skýringin á mun betri afkomu fyrst og fremst að finna í tveimur stöðum, þ.e. 19,5 miljarða gengishagnaði á móti 12 milljarða gengistapi á sama  tímabili í fyrra; fram kemur af hálfu Samson að gengishagnaðurinn sé að mestu til kominn vegna veikingar íslensku krónunnar þar sem félagið sé alþjóðlegt fjárfestingarfélag og kjósi að verja eign sína í Landsbankanum í evrum talið.

Við þetta bætist svo tekjufærsla upp á sex miljarða sem er söluhagnaður vegna fasteignafélagsins Samson Properties til Novator Properties sem keypti allar eignir og yfirtók allar skuldir fasteignafélagsins.