Raftækjaframleiðandinn Samsung Electronics hefur ákveðið að hætta við stefnu gagnvart Apple, einum helsta keppinauti sínum, í Evrópu. Framkvæmdastjóri Samsung sagði í dag að fallið yrði frá kröfu um sölubann á vörur Apple sem að mati Samsung notast við tækni félagsins. Sölubannið átti að ná til verslana í Evrópu, þar á meðal í Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi.

Financial Times greinir frá málinu í dag. Í frétt blaðsins segir að málið sé til merkis um minnkandi spennu milli tæknirisanna sem hafa deilt um einkaleyfi um langa hríð þar sem stefnur hafa verið gefnar út á víxl.