*

mánudagur, 25. janúar 2021
Innlent 23. október 2019 10:44

Samþykkja kaup Origo á Tölvutek

Markaðshlutdeild hins sameinaða fyrirtækist verður um 30-35%.

Ritstjórn
Tölvutek var tekið til gjaldþrotaskipta síðastliðið sumar.

Fyrirtækið Sense ehf., sem er að fullu í eigu Origo, festi nýverið kaup á meirihluta eigna þrotabús Tölvuteks, sem var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms 3. júlí sl.. Samkeppniseftirlitið hefur haft kaupin til umfjöllunar og birti niðurstöðu athugunar sinnar í dag. 

Telur Samkeppniseftirlitið ekki ástæðu til að aðhafast vegna samrunans, hvorki með íhlutun í formi ógildingar eða setningu skilyrða. Áður hafði Samkeppniseftirlitið heimilað að samruninn kæmi til framkvæmda, þótt hann væri ekki að fullu genginn í gegn, þar sem að öðrum kosti að tafir á framkvæmd hans gæti skaðað viðkomandi fyrirtæki eða viðskiptaaðila þess.

Í greinargerð með ákvörðuninni segir að Origo sé þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni og er hlutverk félagsins að aðstoða viðskiptavini að ná enn betri árangri í sínum rekstri með aðstoð upplýsingatækni, sérfræðiþekkingu starfsfólks og þjónustu. Tölvuteks sé einn stærsti dreifingar- og söluaðili á tölvum og tölvubúnaði til einstaklinga og smærri fyrirtækja á Íslandi, félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur dags. 3. júlí 2019, en rekstur þess hafði stöðvast vegna fjárhagsvandræða þann 24. júní 2019.

Þar segir enn fremur að hlutdeild samrunaaðila miðað við veltu á markaði fyrir hlutdeild á tölvum og tölvutengdum búnaði sé á bilinu 30-35%. Sé miðað við víðari markaðsskilgreiningu, þar sem sala sé aðgreind í neytenda- og fyrirtækjamarkaði, sé markaðshlutdeild þeirra á fyrirtækjamarkaði um 35-40% en á neytendamarkaði um 20-25%. 

„Að mati Samkeppniseftirlitsins verður ekki séð, miðað við framkomnar upplýsingar, að viðkomandi samruni leiði til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða að samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. c. samkeppnislaga,“ segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. 

Stikkorð: origo sense tölvutek