Samtök atvinnulífsins (SA) leggja til við afnám gjaldeyrishafta að bönkunum verði gert heimilt að gefa út skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum til allt að tíu ára og að þeim verði leyft að breyta síðan innstæðum erlendra aðila í krónum ýmist í slík skuldabréf eða í bundnar gjaldeyrisinnstæður. Þá leggja samtökin til að 2-5% veltuskattur verði lagður á viðskiptin auk bímabundins útgönguskatts til að búa í haginn fyrir yfirvofandi gengisfall við haftaafnámið.

Þetta kemur fram í áætlun SA um afnám gjaldeyrishafta sem birt var í gær. Þar segir að áætlun Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta sé ótrúverðug og dregið í efa að hún muni skila tilætluðum árangri. Áætlun SA felur m.a. í sér að í stað varfærinna, ótímasettra skrefa sem ætlað er að lágmarka hættuna á gengislækkun verði ferlinu hraðað sem feli í sér að reynt verði að bregðast við afleiðingum tímabundinnar gengislækkunar.

Áætlun SA gengur út frá því að Alþingi samþykki í október lög um afnám hafta sem myndi taka gildi eftir áramótin. Áður en að þeim tíma komið þurfi viðskipti með innilokaðar krónueignir erlendra aðila að vera að mestu afstaðin.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag um áætlunin margt hafa komið áður fram. Þar á meðal að ríkissjóður gefi út skuldabréf í erlendum gjaldeyri til allt að tuttugu ára sem boðin yrðu erlendum eigendum ríkiskuldabréfa á krónum.

Greiningardeildin segir hins vegar margt óljóst í áætlun SA og muni hún þarfnast ítarlegri umfjöllunar og útfærslu áður en henni verði hrint í framkvæmd.