Samtök framleiðenda frumlyfja á Íslandi hafa verið stofnuð og var Hjörleifur Þórarinsson hjá GlaxoSmithKline kjörinn fyrsti formaður þeirra. Tilgangur Samtaka framleiðenda frumlyfja er að efla og dýpka umræðu um lyfjamál og að gæta hagsmuna framleiðenda frumlyfja á Íslandi og á alþjóðavísu. Einnig að stuðla að rannsóknum og þróun lyfja og að annast sameiginleg mál frumlyfjaframleiðenda hér á landi.

Meðal stofnaðila Samtaka framleiðenda frumlyfja eru öll helstu frumlyfjafyrirtæki heims og umboðsfyrirtæki þeirra hér á landi, auk þeirra sem sinna rannsóknum og þróun á þessu sviði á Íslandi, s.s. Íslensk erfðagreining og Lyfjaþróun ehf. Skilyrði fyrir aðild að samtökunum eru, að fyrirtækið, eða fulltrúar þess á Íslandi, stundi lyfjarannsóknir, þrói, framleiði eða markaðssetji lyf. Fyrirtæki sem hafa að markmiði að þróa og markaðssetja samheitalyf og apótek eða apótekakeðjur sem framleiða lyf geta ekki átt aðild að Samtökum framleiðenda frumlyfja.

Samtök framleiðenda frumlyfja hyggjast hafa frumkvæði að rannsóknum og greiningu á íslensku heilbrigðiskerfi svo betri skilningur fáist á þeim vanda sem að steðjar. Einnig vilja samtökin vekja athygli á og kynna mikilvægi rannsókna og þróunar nýrra lyfja fyrir samfélagið og nauðsyn þess að slíkri starfsemi séu búin hagstæð starfsskilyrði á Íslandi.

Sjúkdómar, breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar og ýmis heilbrigðisvá af völdum manna og náttúru eru stöðug áskorun fyrir samfélagið. Fuglaflensa og mögulegur heimsfaraldur inflúensu er nærtækt dæmi um það. Þörf á nýjum meðferðarúrræðum og óskir um framfarir á sviði læknavísinda hafa því aldrei verið meiri. Ein afleiðing þessarar þróunar er aukið álag á heilbrigðiskerfið og meiri kostnaður við málaflokkinn, þar með talinn lyfjakostnaður. Umræða um lyfjamál hér á landi er oft yfirborðskennd og einblínt á beinan útlagðan kostnað vegna lyfja, en ávinningur meðferðar sem fyrirbyggir sjúkdóma, læknar eða dregur úr einkennum þeirra virðist stundum gleymast í umræðunni. Samtök framleiðenda frumlyfja munu standa að gerð fræðslu- og kynningarefnis um lyf og málefni framleiðenda frumlyfja auk efnis um sjúkdóma og forvarnir. Samtökin vilja takast á við vanda heilbrigðiskerfisins á uppbyggilegan hátt og í nánu samstarfi við stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök og stjórnmálaflokka segir í tilkynningu hinna nýju samtaka.