Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að unnið sé að því innan Seðlabankans að erlend matsfyrirtæki lækki ekki lánshæfiseinkunn Íslands í kjölfar niðurstöðu Icesave-kosninganna. Þetta sagði Már í hádegisfréttum Bylgjunnar. Hann sagði að bankinn væri í stöðugu sambandið við matsfyrirtækin, þó ekki hafi verið um að ræða formlega fundi. Már sagði að vænta mætti frekari frétta af viðbrögðum matsfyrirtækja síðar í dag eða á morgun.

Þá kom fram í fréttum Bylgjunnar að ekki er von á endurskoðuðu lánshæfismati Moody's matsfyrirtækis í þessari viku. Matsfyrirtækið hyggst bíða og sjá hver viðbrögð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og nágrannaríkja Íslands verða. Fyrir Icesave-kosningar sagði fyrirtækið að einkunn Íslands verði endurskoðuð til mögulegrar lækkunar ef Icesave-samningarnir verða felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Neikvæð áhrif

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í dag segir að ef lánshæfiseinkunn Íslands lækkuð hafi neikvæð áhrif á fjármögnun Búðarhálsavirkjunar og kann að seinka viðleitni ríkissjóðs til að sækja lánsfé erlendis. „Hafist matsfyrirtækin hins vegar ekki að næstu daga hlýtur það að teljast jákvætt þar sem þar með yrði eytt óvissuþætti sem erlendir fjárfestar horfa talsvert til. Gæti því fjárfesting hérlendis glæðst í kjölfarið.“