Skandinavíska flugfélagið SAS hefur ákveðið að bjóða hluthöfum sínum sérstök afsláttarkjör á flugmiðum. Þetta kemur fram í frétt danska viðskiptablaðsins Börsen. Þar kemur fram að þeir hluthafar sem eiga 500 hluti eða fleiri muni eiga þess kost að kaupa farseðla með umtalsverðum afslætti.

Þar sem nafngengi bréfa SAS er nokkuð hátt jafngildir þetta fjárfestingu upp á um 350.000 íslenskar krónur.

Í tilkynningu félagsins kemur fram að hluthafar hafi forvitnast um þetta og því hafi félagið ákveðið að koma til móts við óskir þeirra. Hefur verið sett upp sérstök netgátt hjá SAS til að selja miðana. tekið er fram að þeir sem nota miðana á þessum kjörum verði að vera í það minnst í burtu í tvær nætur og þeir fáist ekki endurgreiddir.

Þess má geta að flugfélagið Arnarflug hér heima á Íslandi gaf í eina tíð hluthöfum sínum kost á að fljúga á sérstökum afsláttarkjörum með félaginu.