Ríkisstjórn Sádí-Arabíu hefur takmarkað einkarétt ríkisolíufyrirtækis landsins, Saudi Aramco, á vinnslu olíu og gass, við næstu 40 ár, en fyrirtækið hafði áður haft réttinn til eilífðar.

Til hefur staðið að skrá fyrirtækið á markað, en þeim áformum var nýlega frestað ótímabundið. Orkumálaráðherra landsins, Khalid al Falih – sem einnig er stjórnarformaður og fyrrum framkvæmdastjóri Saudi Aramco – segir fyrirætlanir um skráningu þó óbreyttar, en Financial Times segir þó margt benda til skorts á getu eða vilja af hálfu yfirvalda.

Falih sagði hinn nýja samning vera hluta af skráningarferli fyrirtækisins, sem einnig fæli í sér endurbætur á upplýsingagjöf félagsins, og óháða úttekt á varabirgðum þess.

Viðmælendur Financial Times segja hinsvegar að breytingin þjóni litlum sem engum tilgangi á meðan skráningarferlið er í biðstöðu, og segja hina raunverulegu ástæðu vera valdabaráttu milli félagsins og yfirvalda. Ríkisstjórnin hafi upphaflega viljað enn styttri samning, nær þeim 20 árum sem almennt tíðkast hjá alþjóðlegum olíufyrirtækjum, en það hefði getað haft áhrif á virðismat félagsins, og fyrirtækið hafi streist á móti.