Greiningardeild Kaupþings í Finnlandi sendi frá sér nýja fjárfestingarráðgjöf á fjarskiptafyrirtækinu Saunalahti í dag. Sem kunnugt er var greint frá því í gær að Novator, fyrirtæki í meirihlutaeigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hygðist leggja fram yfirtökutilboð í Saunalahti. Áætlað tilboðsverð er 1,9 evrur á hlut og hækkaði verðið á mörkuðum í gær í 1,94 evrur á hlut. Samkvæmt spá greiningardeildar fyrir félagið árið 2005, þá er tilboð Novator V/H margfeldi upp á 26 og EV/EBITDA upp á 14.

Það er mat greiningardeildarinnar að nú sé rétti tíminn fyrir fjárfesta að minnka eign sína í bréfum Saunalahti þar sem verð á markaði er komið nokkuð yfir verðmatsgengi félagsins. Telur greiningardeildin einnig að enn sé töluverður verðþrýstingur á finnska farsímamarkaðinum ásamt því að tilvonandi kaupandi er ekki annað fyrirtæki í sama geira í Finnlandi. Saunalahti greiðir nú um 45 m. evra í leigu fyrir afnot af dreifikerfi, en það er kostnaður sem væri hægt að lækka töluvert ef að kaupandinn væri eigandi að eigin dreifikerfi. Af þessum sökum telur greiningardeildin í Finnlandi að félagið sé of hátt metið nú og því sé góður tími núna fyrir fjárfesta að minnka vægi bréfa Saunalahti í eignasöfnum sínum.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.