Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælti óvænt fyrir frumvarpi um aflandskrónur eftir lokun markaða í gær. Frumvarpið var tekið fyrir á þingfundi og mun taka á aflandskrónuvandanum og leggja grunn að losun fjármagnshafta.

Til stendur að afgreiða frumvarpið um helgina, fyrir opnun markaða á mánudag, en frumvarpið mun gera stjórnvöldum mögulegt að halda útboð á aflandskrónum. Í frétt RÚV kemur fram að aflandskrónurnar nemi um 320 milljörðum króna, en þar býðst Seðlabankinn til að kaupa íslenskar krónur í skiptum fyrir evrur. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir frumvarp Bjarna vera mikilvægt skref í átt að haftaafnámi.

„Þetta skiptir verulega miklu máli vegna þess að það er búið að liggja lengi fyrir að tvær stærstu hindranir fyrir því að losa höftin almennt voru annars vegar innlendar eignir búa föllnu bankanna sem er vandamál sem er leyst, og svo hins vegar þessar eignir. Hættan var auðvitað sú að ef höftunum væri lyft almennt, þá myndu þessar eignir í töluverðum mæli fara í gegnum gjaldeyrismarkaðinn og hafa neikvæð áhrif á gengi krónunnar og fjármálastöðugleika,“ sagði Már í samtali við RÚV.

Már stefnir á að útboðið geti farið fram innan mánaðar, eða um miðjan júní. Segir hann frumvarpið á engan hátt innihalda þvinganir gagnvart aflandskrónueigendum, sem að stórum hluta eru erlendir vogunar- og fjárfestingasjóðir.