Janet Yellen, aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna, ætlar að gera allt sem í hennar valdi stendur til að örva bandarískt efnahagslíf. Yellen sagði í gær ganginn í efnahagslífinu ágætan og fjármálakerfið styrkara en það hefur verið síðustu misserin. Enn er þó nokkuð í land að það nái markmiðum seðlabankans, s.s. sé atvinnuleysi enn of mikið og verðlag óstöðugt og megi lítið bera út af.

Hagvöxtur í Bandaríkjunum mældist 2,4% á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Vísbendingar eru um að hægt hafi á hagvextinum á þessu ári. Þá hefur dregið úr atvinnuleysi og það komið úr 10% árið 2009 í 6,6% nú. Þetta þykir þó enn í hærri kantinum en markmið seðlabankans bandaríska er að atvinnuleysi fari niður í 5,5%.

Yellen sagði í erindi sem hún hélt í seðlabankanum í Washington vestra í gær, að vinnumarkaðurinn væri óstöðugur, of margir væru ýmist án atvinnu eða þyrftu að vinna hlutastörf til að ná endum saman.