Seðlabankinn bannaði eignarhaldsfélaginu Stoðum (áður FL Group) að greiða erlendum hluthöfum arð upp á 805 milljónir króna í fyrravor enda óheimil samkvæmt lögum um gjaldeyrisviðskipti á meðan gjaldeyrishöft eru við lýði. Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, segir í samtali við ViðskiptaMoggann í dag að í kjölfarið hafi arðurinn verið frystu á efnahagsreikningi Stoða. Enn sé rætt við Seðlabankann um greiðsluna.

Í blaðinu segir að Seðlabankinn hafi ekki vilja að með arðgreiðslunni myndi skapast það fordæmi að félög sem lokið hafa nauðasamningum gætu greitt sér út arð í erlendum gjaldeyri sem hafði fallið til við sölu eigna. Í kjölfar arðgreiðslu Stoða voru gerðar breytingar á lögum um gjaldeyrismál í því skyni að skýra nánar hugtakið arður. Í lögunum er nú kveðið á um að arður sem fellur til við sölu eigna eða til hluthafa sem hafa fengið fullnaðargreiðslu krafna sinna með útgáfu hlutafjár í hinu áður skuldsetta félagi, t.d. í samræmi við ákvæði nauðasamnings, telst ekki arður í skilningi laga um gjaldeyrismál. Arðuinn er því ekki undanþeginn gjaldeyrishöftum.