Þó að fjárhagsleg skilyrði heimilanna séu enn erfið eru mörg teikn á lofti sem benda til þess að þau fari hægt batnandi. Árangur hefur náðst í fjárhagslegri endurskipulagningu heimilanna, sem m.a. má sjá í lægri skuldastöðu.

Þetta kemur fram í nýju riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem birt var í morgun.

Þar kemur fram að vinna við endurskipulagninguna sé enn í fullum gangi hjá mörgum fjármálastofnunum og því megi gera ráð fyrir að frekari niðurfærsla skulda eigi eftir að koma fram. Kaupmáttur sé farinn að aukast á ný eftir mjög mikla lækkun á árunum 2009 og 2010.

Seðlabankinn segir að fasteignamarkaðurinn hafi einnig tekið við sér og veltan hafi aukist verulega frá fyrra ári og íbúðaverð hækkað sem bætir eignastöðu heimilanna og eykur veðhæfi þeirra.

„Líklegt er að dómar Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lánasamninga hafi létt á greiðslubyrði annarra lána, en að heimilin þurfi að sama skapi að leggja meira á sig til að mæta húsnæðiskostnaði,2 segir í skýrslu Seðlabankans.

„Um 52% heimila áttu erfitt með að ná endum saman í mars til maí á þessu ári í stað 49% á sama tímabili í fyrra, en munurinn er þó ekki marktækur m.v. 95% öryggisbil. Fyrsta lífskjararannsókn Hagstofunnar var framkvæmd árið 2004 og þá áttu rúmlega 46% heimila erfitt með að ná endum saman, en skuldastaða heimilanna var þá töluvert hagstæðari en nú og atvinnuleysi mun minna.“

Þá kemur fram að hlutfall heimila sem eru í vanskilum með húsnæðislán er svipað í dag og árið 2004 eða um 10%. Aldurshópurinn 30-39 ára á í mestum fjárhagslegum erfiðleikum, en 59% þeirra telja að þeir eigi erfitt með að ná endum saman og 40% að húsnæðiskostnaður sé þung byrði sem er mun hærra en í öðrum aldurshópum.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)