Meginástæður snöggra umskipta á þróun verðbólgu eru vel þekktar og ekki einungis bundnar við Ísland. Að stærstum hluta má rekja þessa þróun til alþjóðlegs hrávöru- og olíuverðs, sem hefur hækkað verulega að undanförnu. Áhrifa hefur gætt um allan heim, einnig hér á landi.

Þetta segir í greinargerð Seðlabanka Íslands til ríkisstjórnarinnar um verðbólgu umfram fráviksmörk. Ársverðbólga í júní mældist 4,2%. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnar og Seðlabankans frá 2011, þegar bankanum var sett verðbólgumarkið, skal stefnt að því að árleg verðbólga verði að jafnaði sem næst 2,5%. Víki verðbólgan meira en 1,5 prósentu frá markmiðinu ber Seðlabankanum að senda greinargerð til ríkisstjórnar þar sem er listað hverjar bankinn telur meginástæður fráviksins, hvernig bankinn hyggst bregðast við og hve langan tíma hann telur það muni taka að ná markmiðinu á ný.

Í greinargerðinni segir að þessu til viðbótar hafi gengi krónunnar lækkað um tæplega 5% gagnvart evru og um tæplega 4% gagnvart viðskiptaveginni gengisvísitölu undanfarna tólf mánuði. Lækkunin er meiri frá áramótum, eða um 7% gagnvart evru og 5,5% að meðaltali. Veikingin hefur gert innflutta vöru og þjónustu dýrari en ella, og má ætla að áhrifa hennar muni gæta enn um hríð.

Þá hefur verið opinberrar þjónustu hækkað um 8,4% á síðustu tólf mánuðum, meðal annars vegna gjaldskrárhækkana Orkuveitu Reykjavíkur og hækkanir á ýmsum gjöldum á þjónustu, t.d. leikskóla og strætisvagna. „Hluti aukinnar verðbólgu undanfarinna missera má einnig rekja til hækkunar á neyslusköttum sem hækka verðlag og þar með verðbólgu tímabundið þangað til áhrifin hverfa út úr tólf mánaða mælingu verðbólgu,“ segir í greinargerðinni. Framlag húsnæðisliðar neysluvísitölunnar, sem mælir verðbólgu, hefur einnig haft áhrif til hækkunar um 0,8 prósentur frá áramótum í júní.

Ætti að hjaðna á ný

„Verðhækkanir á olíu og hrávöru og hækkanir á opinberum gjöldum og þjónustu geta hins vegar ekki einar og sér knúið verðbólgu nema að þær séu viðvarandi. Núverandi slaki í efnahagslífinu og veikur bati 4 þess, sem birtist m.a. í háu atvinnuleysi og takmörkuðum vexti útlána og peningamagns, ættu því að tryggja að verðbólga hjaðni á ný að markmiði þegar áhrif þessara hækkana hafa gengið yfir. Miðað við núverandi horfur og forsendur um þróun þessara þátta er því líklegt að verðbólga taki að hjaðna á ný þegar líða tekur á næsta ár og verði við markmiðið á fyrri hluta ársins 2013,“ segir Seðlabankinn. Mikil óvissa er hins vegar um þessar forsendur. Verðbólga gæti hugsanlega orðið eitthvað þrálátari en núverandi spár gera ráð fyrir.

Um viðbrögð peningastefnunefndar, sem hefur haldið stýrivöxtum óbreyttum á síðustu tveimur vaxtaávöxtunarfundum, segir að áhyggjur nefndarinnar af verðbólguhorfum hafi smám saman farið vaxandi og sumir nefndarmanna talið þörf á að nú þegar verði byrjað að auka aðhald peningastefnunnar. „Líkur á því að á næstunni kunni að þurfa að hækka vexti til að tryggja að verðbólga og verðbólguvæntingar verði við markmið til meðallangs tíma hafa því aukist.“

Næsti vaxtaákvörðunarfundur peningastefnunefndar er 17. ágúst nk.

Greinargerð Seðlabanka Íslands .