Samningskröfuhöfum Sparisjóðabankans var nýverið tilkynnt að ekki myndi takast að ljúka við fyrirhugaðan nauðasamning sem lagður var fyrir kröfuhafa í marsmánuði á þessu ári. Ástæðan er sú að ekki fékkst samþykki allra kröfuhafa svo samningurinn næði fram að ganga. Seðlabankinn vildi jafnframt ekki veita samþykki sitt fyrir útgreiðslu gjaldeyris til samningskröfuhafa né heldur samþykkja sjálfan nauðasamninginn. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

Slitastjórn Sparisjóðabankans vinnur nú að undirbúningi nýs nauðasamningsfrumvarps til að leggja fyrir kröfuhafa og er það talið líklega til að fá samþykki Seðlabanka Íslands.

Eignasafn Seðlabanka Íslands er meðal stærstu kröfuhafa. Heildarkröfur Seðlabankans nema yfir 210 milljörðum króna. Morgunblaðið segir að samkvæmt frumvarpi að nauðasamningi sem var lagt fyrir samningskröfuhafa í mars hafi Seðlabankinn átt að fá um 73 milljarða króna. Ekki sé búist við miklum breytingum á heimtum bankans í nýjum frumvarpi að samningi.