Til þess að halda uppi eftirliti með gjaldeyrishöftum aflar Seðlabankinn víðtækra persónuupplýsinga. Upplýsingar um millifærslur, símgreiðslur, kreditkortaúttektir, hreyfingar á gjaldeyrisreikningum og tollafgreiðsluskýrslur eru geymdar í gagnagrunni bankans. Seðlabankinn getur kallað eftir yfirliti allra hreyfinga á bankareikningum, tölvupóstskeytum til fjármálastofnana og gögnum sem fjármálafyrirtæki afla frá viðskiptavinum á grundvelli laga gegn peningaþvætti og hryðjuverkum. Seðlabankinn getur kallað eftir þessum upplýsingum án dómsúrskurðar.

Í skýrslu Viðskiptaráðs segir að þótt ætla megi að Seðlabankinn kæri sig vart um þessi úrræði, þá eigi jafn víðtæk og ótakmörkuð söfnun persónuupplýsinga sér vart fordæmi hérlendis. „Hún fer fram án ytra eftirlits eða aðhalds með störfum Seðlabankans og vekur upp áleitnar spurningar um friðhelgi einkalífs þeirra sem greiða fyrir vörur og þjónustu utan landsteinanna. Þess má geta að Persónuvernd hefur úrskurðað að þessi upplýsingasöfnun styðjist við fullnægjandi lagaheimildir, en taldi jafnframt að þörf væri á úttekt á öryggi hjá Seðlabankanum við vinnslu þeirra.“

Nánar er fjallað um málið í Úttekt Viðskiptablaðsins um undanþágur frá gjaldeyrishöftum, sem er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.