Seðlabankinn rauf „Kínamúra“ sem eiga gilda um upplýsingar sem stjórnvaldi áskotnast í máli Heiðars Guðjónssonar þegar hann var útilokaður frá kaupum á hlut Eignasafns Seðlabankans í Sjóvá haustið 2010. Upplýsingar úr rannsókn gjaldeyriseftirlits bankans voru notaðar þegar ákveðið var að Heiðar fengi ekki að taka þátt í kaupnum. Þetta er á m.a. það sem kemur fram í svari Seðlabankans við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar lögmanna Heiðars á málsmeðferð Seðlabankans í Sjóvá-málinu. Svarið fékk þingmaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson eftir úrskurð frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Fréttatíminn fjallar um málið í dag og hefur eftir Birgi Tjörva Péturssyni, lögmanni Heiðars Más, að umbjóðandi sinn sé að meta réttarstöðu sína.

Birgir Tjörvi segir í samtali við blaðið Seðlabankann hafa viðurkennt í samskiptum sínum við umboðsmann Alþingis að hafa notað upplýsingarnar með þessum hætti í málinu. Samkvæmt lögum um gjaldeyrismál hvíli þagnarskylda á þeim starfsmönnum bankans sem annist framkvæmd laganna og beri ábyrgð á henni. Þá fái ekki staðist grundvallarreglur í stjórnsýslurétti að slíkum upplýsingum sé miðlað til einkahlutafélags útí bæ í eigu Seðlabankans. Það gæti jafnvel varðað refsiábyrgð í einhverjum tilvikum.

Rannsókn á meintum brotum Heiðars var til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Hún var síðar látin niður falla og staðfesti ríkissaksóknari hana.