Gert er ráð fyrir því að hagvöxtur verði 3,1% í ár. Á næsta ári fer hann niður í 2,3% stendur í 2,25% á næstu þremur árum. Þetta er umtalsvert jákvæðari spá en í apríl þegar Seðlabankinn bjóst við 2,3% hagvexti á árinu og fremur mikilli verðbólgu. Aukinn hagvöxtur skýrist helst af hagstæðri þróun utanríkisviðskipta, að því er fram kemur í Peningamálum.

Seðlabankinn tilkynnti fyrr í morgun að stýrivextir hafi hækkað úr 4,5% í 4,75%. Stýrivextir voru síðast hækkaðir í ágúst en haldið óbreyttum í september.

Í Peningamálum Seðlabankans sem koma út samhliða vaxtaákvörðun virðist bjarta yfir efnahagslífinu, hagvöxtur hafi verið 2,5% á fyrstu sex mánuðum ársins og útlit fyrir að verðbólga verði heldur minni á seinni hluta árs en spáð var í ágúst þegar Peningamál komu síðast út. Í stað þess að fara í 7,0% hámark er nú gert ráð fyrir að verðbólga fari hæst í 6,0% á fyrstu þremur mánuðum næsta árs.

Ástæðan fyrir þessu er 2,3% gengisstyrking krónunnar, þar af um 2,7% gagnvart evru, og minni innflutt verðbólga á móti minni slaka í þjóðarbúinu og heldur meira launaskriði en búist var við í ágúst.

Seðlabankinn spáir því að verðbólga lækki eftir því sem líði á næsta ár og verði komin að verðbólgumarkmiðum í lok árs 2013. Engu að síður er tekið fram í Peningamálum að mikil óvissa sé um verðbólguhorfu í ljósi viðsjárverðra alþjóðahorfa.