Fari svo að meirihluta Skota samþykki sjálfstæði landsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í næstu viku þá ætlar stjórn Royal Bank of Scotland að flytja höfuðstöðvarnar og heimilisfesti frá Edinborg í Skotlandi til London. Hins vegar stendur hvorki til að flytja rekstur né störf, að því er fram kemur í bréfi sem bankastjórinn Ross McEwan hefur sent starfsfólki. Jafnframt er komið inn á málið í tilkynningu sem bankinn hefur sent frá sér.

Höfuðstöðvarnar hafa verið í Skotlandi frá upphafi en bankinn var settur á laggirnar árð 1727. Fleiri bankastjórar hafa verið á svipuðum nótum, m.a. bankastjóri Lloyds. Höfuðstöðvar Lloyds eru í London en heimilisfestið í Skotalandi.

Fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins ( BBC ) um þjóðaratkvæðagreiðsluna að Skotar standi ekki sem einn þegar komi að sjálfstæði eður ei. Þótt bankastjóra Royal Bank of Scotland vilji flytja höfuðstöðvarnar þá telji aðrir sjálfstætt Skotland geta haft jákvæ áhrif. BBC ræðir um málið við Martin Gilbert, forstjóra Aberdeen Asset Management, eins umsvifamesta sjóðs landsins, að sjálfstæði geti verði gott fyrir Skota.