Evruríkin eru vissulega að ganga í gegnum erfiða tíma en ástandi væri mun verra ef ekki væri fyrir evruna.

Þetta sagði Massimo Suardi, sviðsstjóri hjá framkvæmdastjórn ESB á fundi Viðskiptaráðs og fastanefndar Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og Noregi um sjálfstæðar myntir í fjármálakreppu.

Suardi sagði að evran hefði gert það að verkum að meiri stöðugleiki hefði myndast á myntsvæðinu en ella hefði orðið. Hún hefði komið í veg fyrir brenglun á gjaldeyrisviðskiptum milli Evrópusambandsríkja auk þess sem einn seðlabanki (Seðlabanki Evrópu) gæti aðhafst mun hraðar og með skilvirkari hætti en 16 ólíkir seðlabankar.

Þá sagði Suardi jafnframt að evruríkin hefðu farið inn í efnahagskrísuna betur undirbúin og með betri efnahagsstjórn vegna þess regluverks sem gildir í Evrópusambandinu.

Hann sagði þó að evran væri ekki lausn að öllum vandamálum en hún væri komin til að vera og muni að öllum koma sterkari út úr kreppunni en aðrir gjaldmiðlar.

Þá kom Suardi víða við í erindi sínu og rakti þróun efnahagsmála á evrusvæðinu samanborið við Japan og Bandaríkin og þær aðgerðir sem Evrópusambandið hefði þegar farið út í til að sporna við frekari samdrætti í hagkerfum sambandsins.

Hann sagði að Evrópusambandið myndi nú í vor kynna nýjar stofnanir sem ætlað væri að endurskipuleggja reglugerðir um fjármálakerfið með það fyrir augum að skapa meiri stöðugleika.