Ögmundur Jónasson alþingismaður leggst eindregið gegn því að nýr Landspítali verði byggður í einkaframkvæmd. Hann segir að hugmyndin sé galin og skattgreiðendur tapi alltaf á einkaframkvæmdinni.

Eins og VB.is greindi frá hafa fjárfestar sýnt því áhuga að taka þátt í byggingu nýs Landspítala með eignatryggðri fjármögnun.

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag segir Ögmundur frá því að þegar ákveðið var að ráðast í byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði hafi margir viljað heimila einkaaðilum bygginguna. Þegar sérfræðingar hafi metið dæmi hafi komið í ljós að skattgreiðendur myndu tapa einum og hálfum milljarði á því að fara einkaframkvæmdarleiðina.

Ögmundur nefnir þrjár ástæður fyrir því að óhagkvæmt sé að fela einkaaðilum byggingu spítalans. Í fyrsta lagi hafi fagfjárfestar ekki aðgang að jafn góðum lánskjörum og lágum vöxtum og ríkið. Í öðru lagi geri fjárfestar kröfu um hagnað af verkefninu, sem ella myndi verða eftir hjá skattgreiðendum. Í þriðja lagi segir Ögmundur það ekki rétt, sem oft sé haldið fram, að einkaaðilar geri hlutina á hagkvæmari hátt en ríkið. Dæmi erlendis frá og reynsla síðustu ára sýni hið gagnstæða.