Formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, hefur sagt af sér embætti sem fyrsti varaforseti Alþýðusambands Íslands. Kjarninn greinir frá þessu og staðfesti Drífa Snædal, forseti ASÍ, afsögn Vilhjálms í samtali við miðilinn.

Vilhjálmur viðraði í gær hugmyndir um að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð myndi tímabundið lækka úr 11,5% niður í 8%, meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Sagði hann jafnframt að fjölmargir atvinnurekendur hefðu farið þess á leit við stéttarfélögin að kjarasamningsbundnum launahækkunum sem taka gildi í dag, verði frestað. Sú tillaga hugnist sér ekki, en hann sé hins vegar tilbúinn til að fara aðra leið vegna skelfingarástands sem ríkir á vinnumarkaði. Sú leið byggir á fyrrnefndri tímabundinni lækkun á mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóð.

Samtök atvinnulífsins hafa átt í samtali við ASÍ til að leita leiða til að draga tímabundið úr launakostnaði fyrirtækja. Í bréfi sem SA sendi ASÍ sl. mánudag var m.a. óskað eftir því að framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð verði tímabundið lækkað úr 11,5% niður í 8%, sem er einmitt sama leið og Vilhjálmur lagði til.

ASÍ hafnaði þessari tillögu SA og í kjölfar þess sagði Vilhjálmur af sér sem fyrsti varaforseti ASÍ.

Vilhjálmur tjáir sig um málið á Facebook og segir ábyrgðarlaust að gera ekki neitt. Lækkun mótframlags tímabundið gæti hugsanlega varið störf þúsunda á íslenskum vinnumarkaði. „Það er ábyrgðarlaust að gera ekki neitt enda er vinnumarkaðurinn að breytast í blóðugan vígvöll og það bitnar eins og alltaf á almennu launafólki eins og tölur Vinnumálastofnunnar staðfesta," segir Vilhjálmur í færslunni.

.