Í ljósi reynslunnar er engin ástæða til að ætla annað en að afnám vörugjalda skili sér að fullu til neytenda í lægra verði. Þetta sagði Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í hádegisfréttum RÚV.

Mikið hefur verið rætt um hvort afnám vörugjalda, sem tók gildi nú um áramótin, skili sér til neytenda. Andrés segir enga innistæðu fyrir slíkum efasemdum. Ekkert bendi til þess að lækkanir skili sér síður til neytenda en hækkanir. Hann segir að um mikilvægar breytingar sé að ræða fyrir íslenskar neytendur. Með afnámi vörugjalda sé verið að fella út 45 ára gamlan skatt sem hafi reynst „bastarður í skattkerfinu“ og því ættu verkalýðshreyfingar og aðrir að fagna þessu skrefi.

Samkvæmt frétt RÚV um málið hefur reynslan sýnt að lækkun virðisaukaskatts leiðir til lægra vöruverðs. Þannig hafi verðmælingar ASÍ árið 2007, eftir að virðisaukaskattur og vörugjöld á matvælum lækkuðu, leitt í ljós að matvöruverð hafi lækkað um sex til ellefu prósent.