*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 19. október 2018 12:34

Segir aukna verðbólgu ekki sér að kenna

Formaður VR segir spunameistara auðvaldsins gubba út úr sér dapurlegri orðræðu um ástæðu þess að krónan falli.

Ritstjórn
Ragnar Þór Ingólfsson sækist eftir því að verða 1. varaformaður Alþýðusambands Íslands 24.-26. október næstkomandi.
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR spyr á facebook síðu sinni hvort okkur, það er nýrri forystu í verkalýðshreyfingunni, verði næst kennt um hlýnun jarðar. Þannig hefst heillangur reiðilestur Ragnars Þórs þar sem hann byrjar þó á því að segja dapurlegt að fylgjast með orðræðunni „sem spunameistarar auðvaldsins gubba út úr sér þessa dagana.“

Orðræðan sorglega er að mati formannsins sú að gengislækkun krónunnar sem Viðskiptablaðið hefur sagt frá síðustu daga sé vegna þess að nýtt fólk sé komið í brúna í verkalýðshreyfingunni.„Vöruverð hækkar, vaxtahækkunum og uppsögnum hótað því okkur dirfist að krefjast þess að fólk geti lifað með mannlegri reisn af lágmarkslaunum,“ segir Ragnar Þór.

„Verðbólguvæntingar hafa aukist til muna í fjármálakerfinu og sleikja nú eflaust margir fjármagnseigendur munninn ef þeir eru ekki þegar farnir með peningana úr landi, sem aftur hefur áhrif á gengið og verðbólguvæntingar og hærra vöruverð.“

Sótsvartur og lúsugur lýður

Ragnar Þór spyr í kjölfarið hvort þessi staða sé á ábyrgð nýrrar forystu verkalýðshreyfingarinnar og hver sé ábyrgð auðstéttarinnar sem sé tilbúið að fórna lífskjörum heildarinnar í taumlausri græðgi fyrir skammtímagróða.

„Engu verður deilt með sótsvörtum og lúsugum lýðnum,“ segir Ragnar Þór sem kennir frekar um gengisfellingum og skattaundanskotum auðstéttarinnar um auknar verðbólguvæntingar. „Er kröfugerð okkar svo svívirðileg að ekkert verður við ráðið og hér verður sviðnari jörð eftir kjarasamninga en varð eftir sjálft hrunið?

Sannleikurinn er sá að kröfugerð okkar er sanngjörn. Hún er ábyrg í alla staði og er góð fyrir fyrirtækin og fólkið í landinu.
Hún er samfélagslega ábyrg.“

Kröfurnar komi fyrirtækjum vel því auki veltu

Í framhaldinu segir Ragnar Þór að VR hafi kostnaðarreiknað allar kröfur sínar vandlega, og reiknað svigrúmið sem hagkerfið þoli úr prósentum yfir í krónur. Loks listar hann upp kröfur um þjóðarátak í húsnæðismálum, afnám verðtryggingar, styttri vinnuviku og það sem hann kallar sanngjarnara skattkerfi.

Segir hann kröfurnar koma fyrirtækjum í raun vel með því að auka veltu þeirra og heldur svo áfram að nota stóryrði. „Innflúensufaraldur hræðsluáróðurs hagsmunaafla atvinnulífsins hafa smitast út í samfélagið, vöruverð og þjónustu en samt hefur ekki verið samið um eitt eða neitt.

Verðbólgan er farin að banka á dyrnar og býður eftir því að hreiðra um sig í hlýjum verðtryggðum lánasamningum þjóðarinnar. Þetta er allt saman því að kenna að nýja fólkið í verkalýðshreyfingunni er að krefjast mannsæmandi lífskjara.
Verður okkur kennt um hlýnun jarðar næst?,“ spyr Ragnar Þór og gagnrýnir að tekin séu viðtöl við fræðimenn sem hafi kostað þjóðina æru og auð með falsgreiningum.

„Svo er það látið athugasemdalaust að viðkomandi sé jafnframt ráðgjafi viðbjóðslegustu hræGamma samfélagsins og kennir svo unga fólkinu bullið og vitleysuna, sem þeir komust upp með fyrir hrun, í Háskólum landsins.“ Þó ekki komi fram við hvern er átt má geta þess að einn af viðmælendum Viðskiptablaðsins sem kom út í gær, Ásgeir Jónsson lektor við hagfræðideild Háskóla Íslands hætti sem ráðgjafi Gamma í ársbyrjun 2015.

Framkoma auðstéttarinnar viðbjóðsleg

„Mér persónulega finnst þessi orðræða og framkoma auðstéttarinnar viðbjóðsleg og er þá vægt til orða tekið,“ segir Ragnar Þór og vísar þar í að efnaðasta fólkinu sé sama um fólkið sem skrapi tekjubotninn og búi til auð þeirra.

„Við þurfum að dusta rykið af gömlum gildum og ná vopnum okkar í þessu ömurlega orðræðustríði og viðbjóðslega áróðri.
Við þurfum að þjappa okkur á bakvið verkalýðshreyfinguna og berjast fyrir raunverulegum kerfisbreytingum og nýjum gildum.

Setjum þrælslundina í pappírstætarann og stéttarvitund og samstöðu í ljósritunarvélina og dreifum að vild. Uppgjöf okkar er sigur þeirra og ávísun á lífskjör komandi kynslóða. Uppgjöf er ekki valkostur lengur! Samaneinuð erum við ósigrandi.“