Öldungardeildarþingmaður repúblikanaflokksins, Richard Shelby, segir að Ford, General MotorS (GM) og Chrysler eigi ekki að fá 25 milljarða dala björgunarpakka frá ríkinu. Shelby segir að slíkur björgunarpakki yrði aðeins gálgafrestur fyrir fyrirtækin og kallaði eftir því að yfirmenn fyrirtækjanna óskuðu eftir gjaldþrotaskiptum, svo að þau gætu gengið í gegnum þá endurskipulagningu sem þarf til.

Þetta kemur fram í frétt BBC.

Í gær funduðu forstjórar bílaframleiðendanna þriggja með fjárlaganefnd bandarísku öldungadeildarinnar.

Shelby hefur lagst gegn því að stjórnvöld komi rekstri fyrirtækjanna til bjargar, þar sem hann segist ekki telja það þá leið sem vænlegust er til árangurs í rekstri þeirra.

„Ég held að þeir hafi ekki áætlanir um breytingar á rekstrarmódelinu á reiðum höndum, en það er dæmt til að mistakast. Ég held að besta leiðin væri að leyfa fyrirtækjunum að fara í þrot,“ sagði Shelby, sem einnig kallar eftir því að skipt sé um æðstu stjórnendur fyrirtækjanna þar sem þeim hafi ekki tekist að reka þau vel.

Rick Wagoner, forstjóri GM, segir að hrun bandaríska bílabransans gæti þýtt að þrjár milljónir starfa tapist.