Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings og einn sakborninga í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn Kaupþingsmönnum, flutti ræðu við upphafi þinghalds nú í morgun þar sem hann lýsti afstöðu sinni til sakarefnisins. Sagði hann þar ákæru í málinu ranga og lýsti sig saklausan. Greint er frá þessu á Vísi.is .

Í ræðunni lýst Hreiðar Már óánægju sinni á því að íslenska ríkið hefði ekki gert honum kleift að fylgjast með réttarhöldunum á degi hverjum. Honum hafi verið synjað um daglega flutninga til og frá Kvíabryggju vegna kostnaðar. „Hins vegar var ætlun ríkisins að læsa mig inni á gæsluvarðhaldsganginum í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg 9 á meðan réttarhöldin færu fram.“

Kemur fram á Vísi.is að Hreiðar hafi sagst eiga erfitt með að sætta sig við að íslenska ríkið teldi sig ekki eiga efni á því að keyra hann fram og til baka frá Kvíabryggju, en á meðan hafi ríkið varið 7000 milljónum í embætti sérstaks saksóknara.

Upplýsti hann jafnframt að hann hefði sjálfur boðist til að greiða fyrir bíl og bílstjóra svo hann gæti verið viðstaddur réttarhöldin en það hafi ekki verið samþykkt.

„Ég treysti mér því miður ekki að vera læstur í gæsluvarðhaldsklefa á Skólavörðustíg í fimm vikur á meðan málið er rekið hér í Héraðsdómi og raunar tel ég þá málsmeðferð ekki í samræmi við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu,“ hefur Vísir.is eftir Hreiðari Má.