Fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, Samtökum fjármálafyrirtækja og Seðlabankanum komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar í gær og ræddu við nefndarmenn um nýfallinn gengisdóm og áhrif hans á bankakerfið. Kom þar fram í máli fulltrúa FME að kostnaður bankanna vegna dómsins hlypi að lágmarki á tugum milljarða króna en gæti orðið mun hærri ef allt fer á versta veg. Bankakerfið væri þó vel í stakk búið til að takast á við það. Ómögulegt væri að koma með nákvæmari tölu að svo stöddu.

Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður sat fundinn og sagði hann að það hefði komið sér mest á óvart hvað fulltrúar eftirlitsaðila hefðu verið illa undirbúnir. „Það er ekki eins og þessi dómur hafi átt að koma mönnum á óvart, það vissu allir að ákvörðunar væri að vænta í málinu.“ Hann segir að lítið hafi verið um svör við spurningum nefndarmanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.