Björgólfur Jóhannsson starfandi forstjóri Samherja segist reikna með því að Þorsteinn Már Baldvinsson taki aftur við forstjórastólnum að því er RÚV greinir frá , nú þegar innri rannsókn félagsins vegna ásakana um spillingu í Namibíu á að ljúka í lok mars, byrjun apríl. Stjórn Samherja tekur að sögn Björgólfs ákvörðun um framhaldið, en Þorsteinn Már er einn aðaleigenda félagsins. Fréttin hefur verið uppfærð.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur Björgólfur boðið sig fram til áframhaldandi setu í stjórn Sjóvár og hyggst hann hætta sem forstjóri Samherja um svipað leiti. Hann segir það ekki alveg rétt sem haft er eftir honum í norskum fjölmiðli að hann sjái fram á að starfa hjá Samherja fram undir lok miðs árs.

„Það er alla vega markmiðið að hætta á næstunni, hvort sem það er í lok mars, eða í byrjun apríl, að við verðum komnir á þann stað að ég geti gengið frá þessum störfum þá.“ segir Björgólfur sem var í kjölfarið spurður hvort Þorsteinn tæki þá við á ný.

„Ég ætla ekki að svara fyrir það, ég var ráðinn þar til að við værum búnir að hreinsa ávirðingarnar og vinna okkar vinnu í kringum það, hvað okkur varðar, en hvað kemur svo út úr opinberum rannsóknum kemur síðar væntanlega.“

Björgólfur segist heldur ekki geta sagt til um hvað komi út úr vinnu norsku lögfræðistofunnar Wikborg Rein, en hann segist sjá fyrir endann á henni svo þó hún verði ekki alveg tilbúin ætti hann að geta tekið að sér störf fyrir Sjóvá í byrjun apríl.

„Ég var ráðinn hingað til Samherja tímabundið, og þannig að það sé á hreinu þá sá ég ekki að starfið hér myndi trufla störf mín í stjórn Sjóvá á annan hátt en það að þetta starf tæki það mikinn tíma að ég gæti ekki sinn stjórnarstarfinu í Sjóvá sem skildi, þess vegna steig ég til hliðar,“ segir Björgólfur.

„Ég sagði mig reyndar úr öllum öðrum stjórnum sem ég var í, enda reiknaði ég með að ég þyrfti allan minn tíma í starfið hér hjá Samherja, en síðan erum við farnir að sjá hvernig þetta er farið að líta út svo ég tel mig hafa tíma til að sinna stjórnarstörfum í Sjóvá.“

Björgólfur tók ákvörðun um að bjóða sig ekki fram á ný í stjórn Festi en hann hætti þar bæði vegna tíma og vegna eignarhluta Samherja í keppinautunum Högum. Ekkert hafi svo verið rætt um stjórnarsetu í Íslandsstofu á ný.