Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að tekið sé fyrir opnun á sunnudögum í lögum. „Áfengisútsölustaðir skulu vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst,“ segir í reglugerð um smásölu og veitingar áfengis. Fjallað er um málið í Fréttatímanum í dag.

Sigrún Ósk segir að ÁTVR hafi ekki farið fram á að fá að hafa opið á sunnudögum og hafi í raun ekki tekið formlega afstöðu til þess. „Ég held að almennt séð séum við sátt við þetta fyrirkomulag,“ segir hún.

Í Fréttatímanum er einnig rætt við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, formann Heimdallar. Hún segir að það sé ekki aðalatriði að kirkjan og trú fólks skuli vera tengd opnunartíma Vínbúða. Verra sé að fólk njóti ekki frelsis. „Það er ekki alvarlegra að fólk fái sér að drekka á sunnudögum en aðra daga. Ungir sjálfstæðismenn hafa lengi barist fyrir því að fá léttvín og bjór í búðir. Við viljum að fólk geti nálgast þessar vörur alla daga eins og í nágrannalöndunum.“

Sigrún Ósk segir að eflaust sé þetta hluti af gömlu hugarfari enda sé þetta búið að vera lengi í lögum. „Auðvitað er það eitt af markmiðum með einkasölu að stýra aðgenginu. En ég held að fólk sé almennt sátt við þetta. Það koma af og til fyrirspurnir um af hverju ekki sé opið á sunnudögum en við verðum ekki vör við mikinn þrýsting.“