Jón Steinsson hagfræðingur segir að það sé ekki tekið út með sældinni að hrósa ríkisstjórninni og svarar andmælum Friðriks Sophussonar við grein sinni í Fréttablaðinu í dag. Jón hafði haldið því fram að fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar hefði Landsvirkjun neitað að upplýsa almenning um orkuverð til stóriðju af einhverjum ástæðum.

Friðrik svaraði Jóni með grein og sagði „Áratugum saman var hægt að lesa meðalverð á orku til orkufreks iðnaðar úr reikningum Landsvirkjunar.“ Þetta segir Jón að sé rétt hjá Friðriki en á sama tíma villandi. Fram til 2002 hafi þetta verið hægt en á árunum 2003 til 2009 hafi Landsvirkjun breytt framsetningu ársreikninga þannig að upplýsingarnar hafi ekki lengur verið aðgengilegar sem hafi hamlað upplýstri umræðu, m.a. um skynsemi þeirra risavöxnu virkjunarframkvæmda sem ráðist var í á þessum tíma eins og Jón orðar það.

Breyting á birtingu talna sem varð eftir að Hörður Arnarson tók við hafi svo gert óvilhöllum aðilum kleift að meta arðsemi orkusölu Landsvirkjunar til stóriðju síðasta áratuginn segir Jón. Þeir Ásgeir Jónsson og Sigurður Jóhannesson hafi til að mynda komist að þeirri niðurstöðu að arðsemi orkusölu Landsvirkjunar til stóriðju væri lægri en af sambærilegri starfsemi erlendis og svipuð fjármagnskostnaði ríkisins.