Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir gagnrýni forystu Alþýðusambands Íslands á fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar byggjast á útúrsnúningi og rangfærslum.

ASÍ sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í gær þar sem fjallað er um „ríkisstjórn ríka fólksins.“ Í yfirlýsingunni kemur fram að núverandi stjórnvöld hafi, með aðgerðum sínum, lagt kapp á að auka ráðstöfunartekjur best stæðu heimila landsins umfram þau tekjulægri.

Fjármálaráðherra svaraði gagnrýninni á Facebook síðu sinni í gærkvöldi:

„Er það svo að þegar Samfylkingunni dettur „sniðugur“ frasi í hug þá er hann sjálkrafa pikkaður upp af forseta ASÍ (sem fyrrum hugði á framboð undir þeirra merkjum)?“ Segir Bjarni og bætir við að ummæli ASÍ gefi til kynna að kosningar séu framundan innan sambandsins.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að ummæli fjármálaráðherra komi sér ekki á óvart. Það sé þekkt aðferð að persónugera umræðuna. Gylfi segir Alþýðusambandið hafa reynt að leggja grunn að samstarfi við ríkisstjórnina í heilt ár en ríkisstjórnin hafi ekki viljað það. Hann bætir við að fjárlagafrumvarpið sé aðför að launafólki og ASÍ hafi ekki áhuga á að framfylgja þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar.