Viðbúið er að heilbrigðiskerfi, raforkuflutningar og innflutningur til Grikklands hrynji ef gríska þjóðin gengst ekki við tilboði lánardrottna í þjóðaratkvæðagreiðslu á morgun. Þetta segir Martin Schulz, forseti Evrópuþingsins.

Schulz segir að fari svo að Grikkir kjósi nei í atkvæðagreiðslu sé viðbúið að stjórnvöld í Evrópu þurfi að undirbúa neyðaraðstoð til að halda grunnþjónustu gangandi og til að koma í veg fyrir að allt fari í óefni fyrir Grikki.

„Án nýs fés er ekki hægt að greiða laun, heilbrigðiskerfið mun loka, raforkuflutningar og almenningssamgöngur munu liggja niðri og innflutningur verður enginn þar sem ekki verður hægt að greiða fyrir vörurnar," er haft eftir Schulz á Telegraph.

Schulz hefur lagt til að ríkisstjórn „teknókrata" taki við stjórnartaumum í Grikklandi í stað núverandi stjórnvalda þar til búið er að koma á stöðugleika í Grikklandi að nýju.

Ráðherrar í ríkisstjórn segja þetta vera hræðsluáróður og hafa sakað háttsetta embættismenn innan Evrópusambandsins um hræðsluáróður og efnahagsleg hryðjuverk í garð Grikkja.

Nánar á vef Telegraph.