Með minnkandi verðbólgu og vonandi lækkandi stýrivöxtum munu þeir háu vextir á bankareikningum sem viðgengist hafa síðustu misseri lækka umtalsvert

Þetta segir Snorri Jakobsson, hagfræðingur hjá IFS Greiningu í samtali við Viðskiptablaðið.

Snorri segir að eftir hrun peningamarkaðssjóðanna í haust hafi töluvert fjármagn færst yfir á bankainnistæður því þar voru hæstu vextirnir sem boðið var upp á. Þá bendir Snorri jafnframt á að um 10% eigna lífeyrissjóðanna sé í dag á bankabókum, en það er nokkuð hátt hlutfall.

„Þarna voru og eru hæstu vextirnir,“ segir Snorri.

„Það mun hins vegar breytast ef stýrivextir lækka en raunvextir lækka þá talsvert í kjölfarið.“

Snorri segist gera ráð fyrir því að sífellt fleiri muni færa sig inn á skuldabréfamarkaðinn um mitt árið. Með ríkisskuldabréfum fáist líkast til hæstu og öruggustu vextirnir þó vissulega sé ákveðin áhætta í þeim fólgin.

Aðspurður hvort mikill flutningur frá bankainnistæðum yfir á skuldabréfamarkað muni ekki skaða bankanna segist Snorri ekki gera ráð fyrir því að svo verði. Bankarnir séu í stakk búnir til að mæta þeim útgjöldum.