Þeir sem hafa haldið því fram að hér hafi ríkt umsátursástand í kringum hrun efnahagslífsins og vinir í vestri og Evrópu brugðist þurfa að endurskoða þessa kenningu sína í kjölfar dóms í Al Thani-málinu í héraðsdómi Reykjavíkur í gær, að mati Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings. Hann sagði í viðtali um málið á RÚV í morgun að stuðningsmenn kenningarinnar þurfi að útskýra að dómurinn skipti ekki máli í stóra samhenginu eða falla á að hér hafi verið pottur brotinn í fjármálakerfinu og víða.

Þá sagði Guðni að rannsókn embættis sérstaks saksóknara á hvítflibbaglæpum af því tagi sem einkenni Al Thani málið sé ekki séríslensk útgáfa. Þvert á móti sýni málið að að sakborningar hér sem annars staðar taki hressilega á móti og nýti sér ýmis ráð máli sínu til stuðnings, s.s. almannatengla.

Fram kom m.a. í bókinni Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun , að í skjali sem fannst við húsleit árið 2009 merkt almannatenglinum G unnari Steini Pálssyni var sett fram víðtæk áætlun um áhrif á umræðu um helstu lykilpersónur í hruninu sem honum tengdust. Þar kom fram að hægt væri að stofna bloggher til að hafa áhrif á umræðuna. Gunnar Steinn hefur unnið mikið fyrir Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings og Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings-samstæðunnar, auk þeirra Ágústar og Lýðs Guðmundssona í Bakkavör.