Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að fulltrúar frá kanadíska olíufélaginu Irving Oil funda þessa dagana með stjórnendum olíufélaganna og kynna sér rekstur þeirra. Ekki sé útilokað að félagið kaupi annaðhvort rekstur N1 eða Skeljungs.

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, kannaðist ekki við fyrirhuguð fundarhöld með forsvarsmönnum Irving Oil þegar Fréttablaðið innti hann eftir þeim í gær. Blaðið náði ekki í Einar Örn Ólafsson, forstjóra Skeljungs.

Irving Oil hafði fengið úthlutað lóðum fyrir birgðastöð og eldsneytisstöð á Íslandi fyrir um 17 árum. Fréttablaðið rifjar upp að forstjórar olíufélaganna, ESSO (nú N1), Olís og Skeljungs, sneru þá bökum saman gegn félaginu. Samkeppnisráð komst að þeirri niðurstöðu síðar að með samráðinu hafi olíufélögin brotið gegn samkeppnislögum.