Agnes Sigurðardóttir, einn eigenda Bruggsmiðjunnar á Árskógssandi sem bruggar Kalda, er hrædd um að Íslendingar muni taka nokkur skref aftur á bak verði frumvarpið um frjálsa sölu á bjór og léttvíni á Íslandi samþykkt. Hún segir í samtali við Fréttablaðið margar litlar bruggverksmiðjur muni líklega eiga erfitt uppdráttar. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tilkynnt ætlun sína um að leggja fram frumvarp á haustþingi um afnám einkaleyfis ÁTVR á sölu léttvíns og bjórs.

Agnes segir í Fréttablaðinu:

„Við sjáum að þjónustan sem vínbúðirnar veita í dag er frábær og þær eru hvorki að hygla okkar vörum né annarra. Einnig hefur myndast mikil fagmennska innan vínbúðanna sem myndi hverfa. Það sem er hvað erfiðast er að þegar stóru matvörukeðjurnar eru komnar inn á þennan markað þá munu þær taka inn mikið magn af bjór á hagstæðu verði sem við getum ekki keppt við.“

Hún heldur áfram:

„Í vínbúðunum eru allir jafnir, það er það sem skiptir svo miklu máli fyrir okkur litlu framleiðendurna. Flutningskostnaður leggst jafnt á alla og búseta einstaklinga skiptir ekki máli þegar kemur að því að kaupa vöruna okkar. Margir útlendingar sem við höfum rætt við öfunda okkur af því kerfi sem við búum við í dag.“