*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 27. maí 2013 11:29

Segir neytendur hræðast hrátt innflutt kjöt

Kaupmenn fara með Guðna Ágústsson eins og hann sé enn landbúnaðarráðherra.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

„Það er mikið til af afbragðs landbúnaðarvörum erlendis en þar eru sjúkdómar og hættulegar pestir grasserandi og eiturefni brúkuð. Hér er hrein jörð og heilbrigt búfé,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, í enn einni greinni sem hann skrifar í Morgunblaðið um landbúnaðarmál og hömlur á innflutning á hráu erlendu kjöti. Guðni segir enga græða á því að innflutningur á kjöti verði gefinn frjáls og tollar felldir niður. Þvert á móti tryggi hömlur matvælaöryggi hér á landi, að hans mati.

Guðni segir kaupmenn hér á landi stolta af kjötborðinu sínu þegar hann komi í verslanir þeirra, mjólkurkælinum og frystikistunni með kjötinu.

„Þeir fara með mig enn eins og ég sé hálfgerður landbúnaðarráðherra og segjast mjög ánægðir með íslenska bændur og hvað neytendurnir séu öruggir með þessar vörur,“ skrifar Guðni og bendir á að í kjötborði verslana Nóatúns sé því flaggað sérstaklega að þar sé aðeins íslenskt kjöt

„Af hverju ætli það sé?,“ spyr Guðni og svarar: „Trúlega vegna þess að neytendur eru hræddir við hrátt innflutt kjöt og vilja vita hvaðan kjötið er. Er það íslenskt eða er það innflutt? Enda sýna skoðanakannanir að neytendur vilja verja matvælaöryggið og standa með íslenska bóndanum og álíta hann hetjuna sína, þetta segja rýnikannanir, ég bjó það ekki til.“