Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sagði í samtali við Sigurjón M. Egilsson á Sprengisandi í morgun að vöruverðshækkanir í kjölfar launahækkana væru oftar en ekki bara afsökun hjá rekstrareigendum.

„Það er ekki gott þegar maður er að sjá það í fréttum og haft eftir eigendum fyrirtækja þar sem þeir telja að þeir þurfi að hækka vöruverð eða þjónustu hjá sér út af nýgerðum kjarasamningum,“ sagði hún. „Þetta er bara rangt og oftar en ekki er þetta bara afsökun hjá rekstrareigendunum að gera þetta með þessum hætti.“

Hún segir að í raun sé alveg óséð hvort samningarnir halda út samningstímann. Mjög slæmt yrði ef kaupmáttarákvæði nýju kjarasamninganna stæðust ekki, því það myndi leiða til þess að samningar opnist að nýju.