Hinir svokölluðu rauðu dagar, þ.e. almennir frídagar utan helga, kosta hver breskt samfélag um 2,3 milljarða Sterlingspunda og þar með um 19 milljarða punda á ársgrundvelli.

Þetta eru niðurstöður bresku hugveitunnar Centre for Economics and Business Research (CEBR) sem í nýrri skýrslu leggur það til að frídögum verði dreift betur yfir árið eftir að hafa reiknað það út hversu mikið frídagarnir skaða efnahagslífið.

Í Bretlandi (að Skotlandi undanskildu) eru nú fimm auka frídagar á öðrum ársfjórðungi sem allir koma víðs vegar inn í dagatalið. Fyrir utan annan í páskum (sem er ekki frídagur í Skotlandi) koma þeir allir upp í miðri viku skv. umfjöllun BBC.

Í Bretlandi eru að meðaltali átta auka frídagar á ári hverju. Sem fyrr segir telur CEBR að þessir frídagar kosti breskt samfélag um 19 milljarða punda, þ.e. að verg landsframleiðsla minnki um þá upphæð vegna frídaganna.

Douglas McWilliams, stofnandi og forstjóri CEBR, sagði í samtali við BBC í gær að fyrir utan geira tengda ferðaþjónustu, s.s. hótel, krár og veitingastaði, skaði frídagarnir nær alla starfsgeira og þá sérstaklega framleiðslu. McWilliams lagði þó ekki til að frídögunum yrði aflýst, heldur að nær væri að sameina þá helgum eða dreifa betur á milli ársfjórðunga.

„Viðskiptalífið missir ákveðinn skriðþunga þegar það eru margir frídagar sem koma upp á stuttum tíma,“ sagði McWilliams.

Verkalýðsleiðtogar hafa þó tekið heldur illa í skýrslu CEBR sem og ummæli McWilliams. Paul Kenny, formaður GMB (ein stærsta verkalýðshreyfing Bretlands) sagði skýrsluna vera „algjört þvaður“ og sagði að vissulega væri hægt að senda krakka aftur til að vinna í kolanámum og fjölga vikulegum vinnudögum í sex. Þó væri óvíst hverjir myndu versla í verslunum, á veitingastöðum og á íþróttaleikvöngum ef ekki væri fyrir frídagana.

Í umfjöllun BBC kemur fram að bresk verkalýðsfélög hafi á síðustu árum kallað eftir fleiri frídögum – og í leiðinni bent á að flesti ríki innan Evrópusambandsins séu með fleiri skipulagða frídaga. Á Spáni eru þeir 14, í Portúgal og Austurríki eru þeir 13, í Grikklandi 12, í Frakklandi og Ítalíu eru að meðaltali 11 auka frídagar á ári og í Finnlandi og Belgíu eru þeir 10.