Hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja hefur tæplega þrefaldast að verðmæti síðastliðin átta ár og var raunveruleg auðlindarenta geirans á bilinu 22 til 45 milljarðar króna árið 2010, samkvæmt útreikningum Þórólfs Matthíassonar, prófessors við hagfræðideild Háskóla Íslands.

Þórólfur bendir á það í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja hafi aukist verulega eftir hrun bæði banka og krónunnar árið 2008. „Hafi sjávarútvegurinn getað lifað af við þær aðstæður sem voru 2003 til 2007 þá geturinn sjávarútvegurinn auðveldlega greitt 20 milljarða plús árlega í auðlindagjald við núverandi aðstæður,“ skrifar hann.

Þórólfur skrifar: „Nú er það svo að mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa haslað sér völl bæði í veiðum og vinnslu. Fyrir því kunna að vera eðlileg rekstrarrök. En þessu fyrirkomulagi fylgir að fiskvinnsla er ósjaldan að kaupa hráefni af útgerðarfyrirtæki í eigu sama aðila. Með því að halda verði á ferskum fiski lágu minnkar bókfærður hagnaður útgerðarfyrirtækja en bókfærður hagnaður vinnslunnar eykst. Í leiðinni kann eigandinn að hagnast vegna þess að hlutur sjómanna (launagreiðslur sjómanna) skerðist sé fiskverð lækkað „með handafli.“

Þórólfur segir að upplýsingar sínar geti vakið spurningar hjá sjómönnum og þeim sem eru í forsvari fyrir launamál þeirra. Ekki verði annað séð en að verðmæti afurðanna hækki verulega „í hafi“, þ.e.a.s. á leið sinni til útflutningsmarkaða.