Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir að skylduaðild sé að Eflingu – stéttarfélagi. Hann segir skylduaðildina gilda um þá sem vinna í starfsgreinum þar sem Efling og Samtök Atvinnulífsins hafa gert með sér kjarasamning. Á vefsíðu Eflingar segir að verkföll gildi um alla þá sem „starfa í þeim starfsgreinum sem verkfall Eflingar nær til á félagssvæði Eflingar," og því bindi verkfallsboðun alla sem falli undir þá skilgreiningu.

Lítur Efling þannig á að þeir sem starfa í atvinnugreinum þar sem þið hafið samið við atvinnurekendur, hafi ekki val um það hvort þeir séu félagsmenn í Eflingu eða ekki?

„Ég veit ekki hvaða val þú ert að tala um. Ef þú vinnur eftir tiltekinni starfsgrein, og það gildir ekki bara um Eflingu heldur er það í öllum þessum starfsgreinum þar sem er samið við Samtök Atvinnulífsins, þá átt þú að greiða til viðkomandi félags sem að hefur með þann kjarasamning að gera,“ segir Sigurður Bessason í samtali við Viðskiptablaðið.

Er það skylda?

„Þannig er reglan já. Ef þú vinnur við tiltekið starf, þá átt þú að greiða til viðkomandi stéttarfélags,“ bætir hann við.

Verkfall bindur alla

Aðspurður segir Sigurður að þeir sem séu ekki skráðir félagsmenn hafi atkvæðisrétt um verkfallsboðanir, auk þess sem verkfallsboðun bindi þá – óháð því hvort þeir séu skráðir í stéttarfélagið. „Við höfum haft þær skoðanir að þegar við erum að boða verkföll á viðkomandi atvinnugrein, sem við höfum kjarasamning um, að þá sé það þannig að það fari allir í verkfall sem þar eru. Við höfum litið svo á að þetta sé boðun um tiltekið verkfall sem er kjarasamningsbundið á milli okkar og aðila vinnumarkaðarins. Það kann að vera að það séu einhver flækjustig þar á milli.“

Hann bætir við: „Ef það er þannig að viðkomandi lendi í einhverri erfiðri stöðu vegna þess að þá tökum við viðkomandi bara inn á verkfallssjóð.“

Bjóðið þið þeim sem greiða ekki og hafa ekki greitt í verkfallssjóðina að fá engu að síður greitt úr þeim?

„Já, bara einfaldlega að koma inn í félagið,“ segir Sigurður að lokum.