„Það er einhver lýðræðishalli í vinnubrögðum um tilnefningar á stjórnarmönnum í stjórnir lífeyrissjóðanna. Þetta á við bæði hjá launþegum og atvinnurekendum. Ég held að bæði launþegar og atvinnurekendur hafi sofnað á verðinum og látið sjálfvöldum fulltrúum samtaka launþega og samtaka atvinnurekenda það eftir að ákveða hvernig og í hverju sparnaður þeirra er ávaxtaður með því að ákveða fyrir þeirra hönd hverjir sitji í stjórnum lífeyrissjóðanna. Ég hélt að þessir hlutir væru í góðu lagi þangað til ég upplifði annað á eigin skinni.“

Þetta segir Auður Hallgrímsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í Sameinaða lífeyrissjóðnum, í pistli í Fréttatímanum í dag. Þar gagnrýnir hún harðlega fulltrúaráð atvinnurekenda sem hún segir óvirk. Það verði þess valdandi að Samtök atvinnulífsins fari með tilnefningar og ákvarðanir fyrir hönd atvinnurekenda og tilnefni sjálfa sig í stjórnir. Þannig segir hún of langa leið verða frá vilja eigenda lífeyrisréttinda til þess hverjir stjórna þeim fyrir þeirra hönd.

Auk fyrirkomulags við skipun gagnrýnir Auður að ekki séu til reglur um hámarkssetu fulltrúa og nefnir Sameinaða lífeyrissjóðinn sem dæmi.