*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 19. febrúar 2013 08:36

Segir það ekki áhættunnar virði að greiða skattaskuld

Tryggvi Jónsson gerir ítarlega grein fyrir dóminum sem hann hlaut í Baugsmálinu á dögunum í blaðagrein.

Ritstjórn
Tryggvi Jónsson.
Haraldur Guðjónsson

Sá tími sem Baugsmálið hefur staðið yfir hefur verið sérstaklega lærdómsríkur hvað stöðu réttarfars, fjölmiðlunar og lögreglu varðar, að mati Tryggva Jónssonar, aðstoðarforstjóra Baugs. Hann hlaut 18 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í Hæstarétti í byrjun mánaðar og var auk þess dæmdur til að greiða 32 milljónir króna í tengslum við þrjú brot vegna eigin skattskila. M.a. var niðurstaða Hæstaréttar sú að hann hafi vantalið launatekjur sínar, tekjur af nýtingu kaupréttar á hlutabréfum og tekjur í formi launauppbótar. Þá var honum gefið að sök að hafa ekki staðið skil á sköttum í sömu tilvikum. Á sama tíma var Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs, dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 62 milljónir króna vegna skattalagabrota. Kristín, systir Jóns, hlaut þriggja mánaða dóm vegna sambærilegs máls.

Tryggvi skrifar ítarlega grein um málið í Morgunblaðinu í dag og fer í það lið fyrir lið. Þar segir hann málið undarlegt enda hafi hann óafvitandi hafið málið gegn sjálfum sér. 

Hefur alltaf talið fram til skatts

Tryggvi skrifar:

„Hvort sem menn vilja nú trúa því eða ekki þá hef ég alltaf talið fram til skatts eins og ég hef talið rétt og skylt. Á árinu 1999 nýtti ég mér kauprétt á hlutabréfum í Baugi. Þá voru hlutabréfaréttir að ryðja sér til rúms og ekki ljóst hvernig með átti að fara í skattalegu tilliti. Á þeim tíma taldi ég, og þeir sem ég fékk álit hjá, að telja ætti tekjurnar fram til skatts þegar ég tæki fjármunina heim (hlutabréfin voru vistuð erlendis), sem ég gerði árið 2002. Á þessum 3-4 árum hafði hins vegar skýrst afstaða skattyfirvalda um að telja ætti þetta fram þegar rétturinn væri nýttur, sem er líka rökrétt og eðlilegt. Samkvæmt því átti ég að telja þessar tekjur fram með árinu 1999 en ekki 2002 eins og ég gerði. Ég sendi því bréf til ríkisskattstjóra (RSK) og óskaði eftir leiðréttingu. Leiðrétting var gerð og ég fékk nýja álagningu með dráttarvöxtum og álagi. Ég áfrýjaði hins vegar úrskurði RSK til yfirskattanefndar hvað álagið varðaði og óskaði eftir því að það yrði fellt niður þar sem ekki hafi verið ljóst á þessum tíma hvenær telja ætti þessar tekjur fram. Á þetta sjónarmið féllst yfirskattanefnd og ég fékk álagið endurgreitt, en greiddi að sjálfsögðu dráttarvextina.“

Hann undrast niðurstöðuna:

„Þrátt fyrir þetta var ég ákærður af efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra og dæmdur nú í Hæstarétti árið 2013 á þeim grundvelli að ég hefði vísvitandi verið að reyna að svíkja undan skatti. Dæmi nú hver fyrir sig! Og er ekkert að marka yfirskattanefnd? Er hún bara aukahjól sem ekkert gagn er að eða mark takandi á? Ef svo er hvaða málefnalegu ástæður eða sjónarmið eru það þá sem ráða þessari afar matskenndu niðurstöðu Hæstaréttar?“

Og hann skrifar:

„[...] ég finn mig ekki síður knúinn til þess að fjalla um þennan dóm vegna þess að niðurstaða Hæstaréttar sendir að mínu mati röng skilaboð út í samfélagið. Það er nefnilega ekki hægt að draga annan lærdóm af dómi Hæstaréttar en þann að verði fólk þess áskynja að skattframtöl þess séu röng, þá eigi það að varast það sérstaklega að koma heiðarlega fram gagnvart skattyfirvöldum, vekja að eigin frumkvæði athygli á rangfærslum í eigin skattframtölum, óska eftir leiðréttingu og greiða þá skattskuld sem myndast hefur. Það sé einfaldlega ekki áhættunnar virði fyrir fólk að leggja slíkt á sig sjálft. Það kann nefnilega að kosta refsidóm og sektargreiðslur. Slík skilaboð frá æðsta dómstól þjóðarinnar eru ekki einungis slæm, þau eru beinlínis hættuleg.“