Það er áhrifaríkt að sjá að ungir og efnilegir Íslendingar hafa horft fram á við og reyna að nýta sér frumkvöðlafræði til þess að koma hjólum íslenska atvinnulífs aftur af stað. Þetta segir Poul Hedegaard, forstöðumaður MBA námsins við Copenhagen Business School.

Hann segir áhugavert að eftir bankahrunið hafi ungt vel menntað fólk misst vinnuna en ákveðið að sitja ekki með hendur í skauti heldur takast á við aðstæður. Mörg áhugaverð verkefni eins og Startup Iceland sýni að Íslendingar hafi fullan hug á að koma hjólum atvinnulífsins enn betur í gang.

Hedegaard segir að Íslendingar hafi meðal annars sótt í MBA námið í CBS til þess að efla færni sína. Einn af þessum mönnum er Hrafn Stefánsson. Hrafn er menntaður í stjórnmálafræði frá Íslandi. Hann vann hjá Dominos í sex ár, byrjaði sem pizzasendill en vann sig upp í starf rekstarstjóra. Hann vatt síðan kvæði sínu í kross og opnaði sína eigin auglýsingastofu. Þegar verkefnastaðan varð erfiðari ákvað hann síðan að leggja niður auglýsingastofuna og halda út í frekara nám.

„Ég var að vinna í stjórnun og viðskiptum. Mig vantaði haldbæra menntun til að koma mér áfram og ákvað því að fara þangað út,“ segir Hrafn. Hann segist upphaflega hafa verið að skoða skóla í Bandaríkjunum en svo hafi hann rekist á þetta nám í CBS og ákveðið að slá til.

„Það voru margir punktar sem áttu þátt í því að ég sótti þarna um,“ segir Hrafn. Skólinn hafi til að mynda mjög góða tengingu við helstu fyrirtæki í norrænu atvinnulífi. Þar nefnir Hrafn sérstaklega dönsku fyrirtækin Carlsberg og Maersk.

Áherslan á frumkvöðlastarfið hafi vakið athygli sína. „Þeir leggja áherslu á frumkvöðlastarf og nýsköpun og miðað við minn feril þá átti þetta vel við,“ segir hann.

Námið sem Hrafn stundaði tók eitt ár og honum sýnist atvinnumarkaðurinn hér vera betri en hann var fyrir ári. „Ég er nýkominn heim og er að skoða markaðinn,“ segir hann. Viðbrögðin hafi verið góð.